Færsluflokkur: Bloggar

Próftaka danskra nema klúðraðist vegna slælegra vinnubragða

Á meðan íslenskir fjölmiðlar fjalla um brotthvarf formanns danska handboltasambandsins þá var önnur frétt sem vakti mína athygli í dönskum fjölmiðlum í dag. Í gær átti að vera samræmt líffræðipróf í öllum grunnskólum, 22000 nemendur áttu að taka það og átti að taka það á netinu. Nemendur komu undirbúnir undir prófið og settust við tölvurnar og þegar mátti hefjast handa hófu þeir að logga sig inn og ekkert gekk hjá um helming þeirra, sumir komust inn en eftir að hafa fyllt út fyrstu síðuna komust þeir ekki á næstu. Eftir einhverja stund var þetta stoppað og stærðfræðiprófi sem átti að vera á netinu í dag var frestað og allavega líffræðiprófið verður upp úr 20. maí og þá á pappír. Þvílíkur skandall, sem hugbúnaðarverkfræðinemi sér maður að hér hafa menn ekki unnið heimavinnuna sína. Kerfið hefur ekki verið prófað nóg. Það var greinilega ekki tilbúið undir að fá yfir 20000 samtímanotendur. Væri maður fúll ef maður væri búinn að leggja mikið á sig við að undirbúa sig fyrir prófið sem nemandi og svo myndi maður mæta og þá væri þetta ekki hægt og prófið yrði eftir 2 vikur.Ætla rétt að vona að maðurinn sem ber ábyrgð á þessu verði látinn svara til saka.

Hver fallegi dagurinn á fætur öðrum

Ég sagði þetta strax eftir átta liða úrslitin, keppnin núna er endurtekning á keppninni 2005.

Veit að margir vinir mínir gráta núna en þeir hafa oft strítt manni á Liverpool, ég hef leyfi núna. Nú getur Man Utd einbeitt sér að því að vinna 2 dollur á Englandi. Sem er reyndar ekki jafnt stórt og að vinna Meistaradeild.


mbl.is AC Milan í úrslitaleikinn gegn Liverpool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér gæti staðið svo margt fallegt

Hvað getur maður sagt, allt það fallegasta sem til er.

Vitnað í Bubba og sagt "þessi fallegi dagur"

Nú verður spennandi að sjá hvort ManUtd nær að trufla repeat frá 2005. Úff hvað er gaman að vera poolari.

Það virðist ekki liggja fyrir Chelsea að vinna Meistaradeildina sem er gott, ekki nóg að eiga peninga til að vinna, það þarf hugarfar líka.


mbl.is Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1. maí, þó ekki í Malaga

Er búinn að vera hugsa um hvað heimurinn getur verði öfugsnúinn.

Nú er ég búinn að búa í Danmörku í nærri 4 ár og upplifað hvað danska kerfið er mikið socialkerfi, velferðarkerfi þó vissulega sé ekki allt fullkomið.

Ég hef líka séð betur og betur hvað Ísland er kapítalískt.

Það er því skondið að upplifa það í dag, 1. maí baráttudag alþýðunnar, eru allir í fríi á Íslandi en hér í Danmörku eru nokkrir smiðir í fríi eftir hádegi. Reyndar er Helle Thorning á ferð um landið að halda ræður.


Ríksiborgararéttur

Ég er búinn að vera að reyna að lesa það sem skrifað er um þessa ríkisborgararéttarveitingu sem einhverjum fannst ósanngjörn. Þ.e. að verðandi tengdadóttir Jónínu Bjartmars hafi fengið ríkisborgararétt eftir að hafa búið hér í mjög skamman tíma.

Ég hef ekki hugmynd um hvort Jónína ýtti á einhverja takka en allir sem málið varða neita öllu slíku og enn hefur Kastljósmönnum/Helga Seljan ekki tekist að sanna neitt. Atli Rúnar Halldórsson skrifar athyglisverðan pistil um hvernig fjölmiðlamenn eru stundum misnotaðir í pólitískum tilgangi.

En það sem pirrar mig í þessu máli er að það er oft talað um að fólk fái ríkisborgararétt eftir svo skamman tíma ef það er t.d. afreksíþróttafólk og geti verið ávinningur fyrir þjóðfélagið að það sé Íslendingar. Nú þekki ég vel til í körfubolta, á síðustu árum hafa allnokkrir körfuknattleiksmenn fengið ríkisborgararétt, flestir eru þeir afreksmenn í íþróttinni á íslenskan mælikvarða, fæstir á erlendan. Nú er það þannig að reglur alþjóða körfuknattleikssambandsins segja að aðeins megi nota einn leikmann með tvöfalt ríkisfang í landsleikjum. Þar með má Ísland einungis nota einn af þessum köppum. Nú hefur það verið þannig að sumir þeirra hafa leikið með landsliðinu og aðeins einn hefur virkilega nennt því. Hinir hafa druslast með í eitt mót eða svo og eru svo horfnir til Evrópu þar sem enginn nær í þá geta þar leikið sem Bosmanleikmenn og haft það gott. Ávinningur Íslands er því sáralítill af þessum hóp, eiginlega enginn. Ég nefndi einn sem hefur haft metnaðinn í landsliðsverkefni og sá kappi býr hér á landi og á sína íslensku konu og sín börn.

Þetta eru svo sem ekki hlutir sem maður veit þegar ríkisborgararéttur er veittur, en stundum hefur mér fundist vera farið frjálslega með þá veitingu.

Þeir afreksmenn í íþróttum sem ég man eftir sem hafa skilað einhverju til Íslands sem íþróttamenn eftir ríkisborgaraveitingu eru Rúnar Alexandersson, Julian Duranona, Alexander Petterson, kannski Jaliesky Garcia og Brenton Birmingham. Kannski hægt að nefna einhverja fótboltamenn en þeir hafa fæstir verið á landsliðsklassa.


Mogginn að klikka

Getur það verið að Mogginn eigi engar myndir af þessu lokahófi? Sendu þeir virkilega engan ljósmyndara?

Er það líka eðlilegt að þessi frétt komi fyrst klukkan 8:47 á vef þeirra? Fréttin birtist klukkan 23:44 á vef KKÍ og innan við 10 mínútum seinna var fréttin komin í tölvupósthólf þeirra.

Mér þykir þetta léleg frammistaða hjá fjölmiðli sem er í samkeppni og vill vera fyrstur með fréttirnar.

En jafnfram óska ég öllum verðlaunahöfum á hófinu til hamingju, sendi þó sérstakar kveðjur til vinar míns Sigmundar Más.

Vona að allir hafi skemmt sér vel á hófinu og maður fái að heyra sögur næstu daga. Mikið vildi ég hafa verið þarna.


mbl.is Brenton og Helena valin bestu leikmenn efstu deilda í körfubolta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta skil ég vel

Mikið skil ég það vel að flestir hlusti á Rás 2. Mér finnst fátt betra en að hlusta á Rás 2 hérna í Danmörku, þökk sé netinu. Það sem heillar mig er að þar er hæfileg blanda af tali og tónum og tónarnir eru ekki af einhverjum forskrifuðum lista sem aðeins finnast 20 lög á eins og virðist vera á sumum útvarpsstöðvum. Þess vegna skil ég ekki 60% hlustun á Bylgjuna, neyðist stundum til að hlusta á hana þegar ég er á Íslandi og þvílík hörmung, sömu lögin aftur og aftur og öll eins.

Gestur Einar og Hrafnhildur eru frábært á morgnana á Rás 2, Magnús Einarsson er góður milli 9 og 12, Poppland klikkar aldrei. Um helgar eru Erla Ragnarsdóttir og Margrét Blöndal á morgnana og báðar mjög ljúfar að hlusta á við morgunverkin.

Ég sakna þess reyndar að geta ekki hlustað Rás2 eftir 22 á kvöldin um helgar, það gengur ekki upp þegar maður er 2 tímum á undan landinu. En Guðni Már á föstudagskvöldum með allt frá Álftagerðisbræðrum til Metallica og svo Snorri Sturluson á laugardögum, er hægt að biðja um það betra?


mbl.is Flestir hlusta á Rás 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danskar ferðatryggingar

Danir eru ótrúlega frjálsyndir, það sannast enn og aftur.

Utanríkisráðuneytið er nú að minna fólk á að kaupa ferðatryggingar áður en það heldur erlendis og hefur búið til myndband sem fólk er hvatt til að skoða.

Held að svona lagað myndi hvergi líðast nema í Danmörku.


Kaupfélag Skagfirðinga á afmæli í dag

Það rifjaðist upp fyrir mér áðan að þennan dag á þessum tíma fyrir 18 árum var ég hundsvekktur yfir að komast ekki á ball með Geirmundi. Þetta var á fermingardaginn minn sem jafnframt var 100 ára afmælisdagur Kaupfélags Skagfirðinga og manninum með titilinn Fjármál, bændaviðskipti munaði ekki um að slá upp balli fyrir alla unglinga í Skagafirði 14 ára og eldri í tilefni dagsins.

Ég get svo sem ekkert kvartað, hef farið á mörg Geirmundarböllin eftir þetta og á dögunum fékk ég sendan best of diskinn hans og nú fá afkomendur mínir að læra að hlusta á Geirmund.

Ég fór líka að hugsa um það um daginn hvort einhvern tíman hafi verið skrásett hverjir hafa spilað með kappanum. T.d. hafði ég ekki hugmynd um að Steini Hannesar hafi spilað með honum á upphafsárunum, vissi reyndar ekki að Steini kynni á hljóðfæri, vissi bara að hann var lipur með trilluna þegar hann kom með vörurnar fram í Varmahlíð á litla KS bílnum.


Blowing bubbles

Var að horfa á Garðar Thor Cortes syngja á Upton Park og varð hugsað til ferðar okkar félaganna á þann ágæta leikvang í lok janúar. Verð að segja að ég hafði meira gaman af því að hlusta á stuðningsmenn WestHam syngja Blowing bubbles en að heyra Garðar syngja það, fannst það ekki passa einhvern veginn.

Þið sem hafið ekki séð myndbandið úr ferðinni getið kíkt hér og fengið að upplifa WestHam fans syngja lagið góða.

Svo var eitt sem ég var að hugsa um, afhverju eru tveir stafir fyrir sama hljóðið í íslensku? I og Y, í dönsku hafa þessir stafir sitthvort hljóðið og eins í ensku, ég er svo sem ekki fróður í öðrum tungumálum. En ég fór að velta þessu fyrir mér, þetta samræmist svo sem ekki mínum skoðunum um íslenskt mál en mér finnst fátt eins ljótt og orð skrifuð með i í stað y og öfugt. Afhverju var t.d. z felld úr íslensku? Það hlýtur að hafa verið eitthvað svipað, tvö tákn fyrir sama hljóð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Rúnar Birgir Gíslason

Höfundur

Rúnar Birgir Gíslason
Rúnar Birgir Gíslason

Skagfirskur tæknifræðingur og mastersnemi í viðskipta og tæknifræði í Árósum og körfuboltaáhugamaður

runar@mikkivefur.is

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...illlaimogga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband