Færsluflokkur: Íþróttir
19.11.2007 | 16:31
Sigmundur svarar ekki
Undirritaður ritaði opið bréf til yfirmanns íþróttadeildar Morgunblaðsins fyrir nokkru, hann hefur engu svarað enn og því skrifaði ég nýtt bréf sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Mánudaginn 29. október sendi undirritaður tölvupóst á Sigmund Ó. Steinarsson yfirmann íþróttadeildar Morgunblaðsins. Ástæðan var skortur á umfjöllun um stórleik Njarðvíkur og Keflavíkur í Iceland Express deild karla sem fram fór daginn áður. Greinilegt var að Morgunblaðið hafði ekki sent mann á leikinn og einungis skrifaðar 14 línur um leikinn í blaðinu. Einnig var ekki minnst orði á leik Fjölnis og Tindastóls sem fram fór í sömu deild þann sama dag.
Tölvupóstinn skrifaði ég eftir að hafa heyrt í mörgum óánægðum körfuknattleiksunnendum sem hefur þótt Morgunblaðið sniðganga körfubolta oft á tíðum. Í tölvupóstinum spurði ég hann hvers vegna ekki hafi verið sendur maður á stórleik sem Njarðvík Keflavík er og einnig hvort það væri stefna blaðsins að sniðganga körfubolta.
Viku seinna hafði mér ekki borist svar og ritaði ég því opið bréf sem birt var á vef okkar, karfan.is. Einnig sendi ég blaðið sem lesendabréf í Morgunblaðið með von um birtingu á næstu dögum. Sömu vinnubrögð viðhafði ég í sumar þegar ég skoraði á Skjáinn að sýna körfubolta í stað enska boltans sem þeir misstu. Bréfið á karfan.is fékk vægast sagt góðar viðtökur og yfir 3000 manns lásu bréfið og í dag eru um 4000 búnir að lesa auk þess sem bréfið birtist á öðrum vefjum í heild sinni. Í bréfinu skoraði ég jafnframt á fólk að senda Sigmundi tölvupóst og hvetja hann til að svara mér.
Daginn eftir fékk ég bréf frá Morgunblaðinu þar sem birtingu var hafnað þar sem það hafði birst opinberlega annarsstaðar, á karfan.is. Gott og vel, þeir hafa sínar reglur en ég fór sömu leið og í júní og þá var bréf mitt birt. Kannski ekki eins áberandi málefni.
Ég ritaði því Karli Blöndal ritstjóra blaðsins bréf og sagði honum að Sigmundur hefði ekki svarað mér, Karl svaraði skömmu síðar og sagði hnippa í Sigmund.
Sunnudag fyrir rúmri viku, 14 dögum eftir að ég sendi upphaflegan tölvupóst hafði mér ekki enn borist svar. Ég skrifaði því Karli og Sigmundi tölvupóst og bað um svar. Það hefur ekki borist enn.
Yfirmaður íþróttadeildar Morgunblaðsins velur greinilega að þegja málið í hel, það eru hans vinnubrögð. Ég hef því miður ekki meiri tíma og krafta að sinni til að krefja hann svara og læt þessu máli hér með lokið. Vil þó taka það fram að mér hefur þótt blaðið sinna körfubolta vel síðastliðnar tvær vikur.
Með körfuboltakveðju
Rúnar Birgir Gíslason
Fréttastjóri karfan.is
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.11.2007 | 08:12
Hver er stefnan Sigmundur
Körfuboltamenn hafa ósjaldan kvartað sáran yfir skorti á umfjöllun um íþróttina í íslenskum fjölmiðlum. Margir hafa haft hátt á heimasíðum og spjallsvæðum eða hver við annan. Undirritaður var einn af þeim sem hafði allt á hornum sér lengi en ákvað svo að taka upp nýja siði. Hætta að skammast og í þess stað að hrósa því sem vel er gert og vinna að því að aðgengi fjölmiðla sé meira að fréttum úr körfubolta. Meðal annars með því að skrifa á karfan.is.
Sjálfum hefur mér þótt umfjöllun verið að aukast undanfarið og ekki mikið hægt að kvarta þó alltaf sé hægt að gera betur.
En síðasta mánudag missti undirritaður málið við lestur á Morgunblaðinu. Á sunnudeginum fóru fram fjórir leiki í Iceland Express deild karla, í Stykkishólmi, á Akureyri, í Grafarvogi og í Njarðvík áttust við Njarðvík og Keflavík. Stórleikur eins og þeir gerast bestir í íslenskum körfubolta. Í Morgunblaðinu mánudaginn 29. október var hálfsíða um alla leikina, slatti um leikinn á Akureyri, aðeins minna um leikinn í Stykkishólmi, 14 línur um stórleikinn í Njarðvík og ekki minnst á leikinn í Grafarvogi. Hvað á svona blaðamennska að þýða? Að Morgunblaðið sem þetta stóra blað sem gefur sig út fyrir að vera vandaður miðill sem er selt í áskrift, ólíkt hinu stóra blaðinu á markaðnum, skuli ekki sjá sér fært að senda mann á stórleik eins og Njarðvík - Keflavík, er óskiljanlegt. Við erum að tala um stórleik í einni af þremur stærstu boltagreinum á landinu. Húsið í Njarðvík var troðfullt og fólk þurfti frá að hverfa en Morgunblaðið sendi ekki mann á svæðið.
Ég ætla að leyfa mér að setja ábyrgðina á stjórn íþróttadeildarinnar. Getur það virkilega verið að stjórnandi deildarinnar hafi ekki sett þær línur að það sé penni á stórleikjum eins og Njarðvík Keflavík er? Hefur hann kannski ekki lagt neinar línur? Mega þeir sem eru á vakt bara skrifa um það sem þeim sýnist? Blaðamenn hafa sín áhugasvið, hjá því verður aldrei komist en jafnframt hlýtur það að vera hlutverk þeirra að meta hvað selur og hvað selur ekki. Að einhver geti komist að þeirri niðurstöðu að stórleikur í einni af þremur stærstu boltagreinunum á Íslandi selji ekki er mér óskiljanlegt. Hér hlýtur að vanta að yfirmaður leggi línur og láti sína undirmenn fylgja þeim. Má kannski líkja þessu við umfjöllunina um íslenska landslið í knattspyrnu, að stjórnandinn leggi ekki línur fyrir leikmennina sem eru hver í sínu horni að gera það sem þeir vilja.
Einnig það að ekki sé stafur í textalýsingu um leik Fjölnis og Tindastóls er einnig merkilegt. Ég segi það fullum fetum að það mun aldrei koma fyrir að Morgunblaðið segi ekki frá leik í Landsbankadeild karla. Geri mér þó grein fyrir að iðkendur og áhangendur í fótbolta eru töluvert fleiri en í nokkurri annarri grein. Að sama skapi sé það ekki gerast að leik í N1 deildinni sé sleppt, hvað þá að skrifaðar séu 14 línur um stórleik. Samkvæmt tölum ÍSÍ eru svipað margir iðkendur í handbolta og körfubolta svo ekki getur Morgunblaðið borið því við. Miðað við þær tölur sem birtast í fjölmiðlum um áhorfendasókn í þessum tveimur greinum virðist áhuginn allavega ekki vera minni á körfubolta, jafnvel meiri. Hvað er það þá sem fær blaðið til að sleppa leikjum í efstu deild og skrifa jafn lítið um stórleiki og raun ber vitni?
Til samanburðar er vefurinn karfan.is að manna flesta leiki í efstu deild karla og kvenna auk þess sem við erum að manna allflesta leiki í 1. deild karla auk nokkurra leikja í 1. deild kvenna. Á þessum vef fær enginn krónu fyrir sína vinnu. Alls eru um 20 manns sem leggja hönd á plóginn án þess að þiggja nokkuð fyrir annað en ánægjuna að koma körfubolta á framfæri.
Undirritaður sendi tölvupóst á Sigmund Ó. Steinarsson íþróttafréttastjóra Morgunblaðsins á mánudaginn og spurði út í þetta. Hvernig skipulagið væri á þessum hlutum og hvernig það mætti vera að ekki væri fjallað um jafn stóra leiki og Njarðvík Keflavík. Sigmundur hefur því miður ekki séð sér fært að svara þeim tölvupósti og skýra þeirra sjónarmið.
Það er spurning hvort það hreyfir við honum ef allir þeir sem þetta lesa senda honum póst og hvetja hann til að svara pósti mínum. Netfangið hans er sos@mbl.is
Rúnar Birgir Gíslason
Fréttastjóri karfan.is
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 08:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
17.10.2007 | 21:12
Er vont fyrir landslið aðhafa stjörnur
Ég get líka yfirfært þetta yfir á körfuboltann. Jón Arnór Stefánsson er stærsta stjarnan í íslenskum körfubolta. Spilar fyrir margar milljónir á Ítalíu og hefur verið í NBA. Þegar hann spilar með landsliðinu þá virðst hinir leikmennirnir alltaf vera að bíða eftir að hann klári dæmið en því miður er hann bara ekki sú týpa sem getur það. Hans styrkleikar liggja í öðru, t.d. varnarleik. Jón Arnór hefur ekkert leikið með íslenska landsliðinu á þessu ári og liðið tapaði aðeins einum leik.
Kannski er þetta öðruvísi í handboltanum þar sem margir leikmenn eru stjörnur.
Mig minnir að þetta hafi verið svipað með Ásgeir Sigurvinsson, hann nýttist aldrei landsliðinu.
Ég er ekki að gera lítið úr Jóni Arnóri og Eið Smára, þeir eru stórkostlegir leikmenn báðir tveir. En spurningin er hvort hinir leikmenn landsliðana leiki betur án þeirra.
Sorglegt ef þetta er satt.
Ljótur skellur Íslands í Liechtenstein | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.9.2007 | 18:33
Óréttlæti í fótboltanum
Ég rak augun í það í dag að leik BÍ/Bolungarvíkur og Tindastóls í 3. deildinni sem fara átti fram í dag var frestað þar sem Tindastólsmenn gátu ekki flogið vegna veðurs. Vestfirðingar vilja þó meina að allt áætlunarflug hafi flogið vestur í dag en það þekki ég af eigin reynslu að Tindastólsmenn stjórna ekki ákvörðunum leiguflugvéla.
En það sem mér liggur helst á hjarta er að einn leikmaður Tindastóls sem hefði spilað í dag verður í banni á morgun þegar leikurinn fer fram. Þessi leikmaður sem heitir Dejan Djuric var dæmdur í bann á þriðjudag vegna gulra spjalda og tekur bannið gildi á morgun á hádegi. Svo sem ekkert óeðlilegt við þá refsingu. Þetta á einnig við um Sigþór Snorrason leikmann BÍ/Bolungarvíkur.
Það sem er óeðlilegt er að það kemur niður á leikmanninum að leiknum er frestað. Hann var löglegur í dag en ekki á morgun. Í þeim íþróttum sem ég hef fylgst með, sérstaklega körfubolta, er það þannig að ef leik er frestað vegna veðurs eða annarra náttúruhamfara þá eru þeir löglegir þegar leikurinn er leikinn, sem voru löglegir þegar leikurinn var upphaflega settur á.
Tökum dæmi. Á þriðjudegi er Helgi Sigurðsson Valsari dæmdur í bann, bannið tekur gildi á föstudag. Valur á leik við FH á fimmtudag, toppslagur í deildinni og mánudaginn á eftir á Valur að spila bikarleik við Snört á Kópaskeri. Helgi verður því í banni í þeim leik. En á fimmtudag ríður jarðskjálfti yfir höfuðborgarsvæði ð og því ekki hægt að leika leik Vals og FH. Hann er settur á á föstudag, obbs, nú er Helgi í banni á móti FH og getur spilað gegn Snerti.
Það er líka gamaldags að aganefnd dæmi á þriðudegi og bann taki gildi á hádegi á föstudegi. KKÍ breytti þessu nú í vor og þar tekur bann gildi á hádegi daginn eftir að er dæmt.
Þetta finnst mér mjög óeðlilegt.Vil taka það fram að þó ég sé Skagfirðingur og beri því einhverjar taugar til Tindastóls þá hefði ég skrifað þennan pistil hvenær sem er um hvaða lið sem er.
Mér finnst þetta óréttlátt.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.9.2007 | 21:12
Til hamingju körfubolti
Til hamingju með þetta strákar og til hamingju körfubolti.
Ekki slæmt að vinna 8 af 9 leikjum ársins. Samt taugastrekkjandi eins og í Lúx, undir í fyrri hálfleik en stinga svo af í seinni. Spurning hvort íslenska liðið er bara í svona góðu formi.
11 leikmenn skora í kvöld.
Það er líka athyglisvert að sjá að lið sem Ísland vann tvisvar í síðustu B keppni, Rúmenar kemst upp úr sínum riðli. Sýnir hversu stutt Ísland er frá því að komast áfram.
Nú fer svo deildin að byrja og þá heldur gleðin áfram.
Vil líka hrósa Mogganum fyrir góða umfjöllun um körfuboltann nú í haust. Efast ekki um að áframhald verður á því í vetur.
Íslendingar lögðu Austurríkismenn 91:77 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.6.2007 | 17:50
Blessaður handboltinn
Ég verð að viðurkenna að reglur og vinnubrögð í handbolta valda oft hneykslun hjá mér, kannski frekar en margt annað. Veit ekki afhverju.
En á dögunum var ákváðu 2 lið sem áttu rétt á að keppa í meistaradeildinn í handbolta að gefa sæti sitt eftir. EHF ákvað að spænska liðið Barcelona og danska liðið Viborg fengju þessi tvö sæti. Nú er það þannig í Danmörku að danska sambandið hefur ákveðnar reglur um hvernig skuli úthluta sætum sem Danmörk á í meistaradeild. Fyrst eru það meistararnir og svo deildarmeistararnir. Nú er það svo að Viborg er hvorugt, þeir töpuðu í úrslitum fyrir GOG en FCK varð deildarmeistari.
Það sem mér finnst furðulegt í þessu er að EHF ákveður hvaða lið koma frá hverju landi, gengur framhjá reglum hvers lands.
Danirnir mótmæltu en það hafði engin áhrif.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.6.2007 | 12:17
Vel borgað hjá Fylki
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.6.2007 | 19:43
Vilja Skagfirðingar eiga lið í efstu deild?
Í Feyki sem kom út í gær var grein eftir mig, birti hana hér.
Það hefur vakið athygli mína undanfarið hversu mikil þögn ríkir í kringum körfuknattleiksdeild Tindastóls. Undirritaður er einn af þeim sem skrifar fréttir á vefinn karfan.is og hefur verið í miklu samstarfi við félögin um fréttir og einnig hina almennu iðkendur sem gauka slúðrinu að okkur. Mikið líf hefur verið eftir að tímabilinu lauk og ýmislegt hefur maður fengið að heyra um hin og þessi lið en aldrei heyrir maður neitt um Tindastól.
Ég hef eins og áður var nefnt verið í samskiptum við flest öll félög í landinu, sent fyrirspurnir um hitt og þetta á hina og þessa stjórnar- og áhrifamenn innan hvers félags til að fá hitt og þetta staðfest. Einnig til þess að fá fréttir af starfinu. Oft hef ég sett mig í samband við þá sem ég tel hafa svörin í Tindastól en lítið hefur verið um svör.
Einnig hef ég fylgst með heimasíðu félagsins og þar er ekkert að gerast. Á spjallsvæðinu hafa menn reynt að leggja fyrirspurnir en engin svör koma og það er líka merkilegt að það skapast engin umræða.Þetta er þvert á það sem ég skynja á landsvísu, körfuboltinn hefur notið mikils meðbyrs í vetur og sjaldan verið jafn mikil og jákvæð umfjöllun um hann og í vetur.
Ég spyr mig því, er enginn áhugi fyrir körfubolta í Skagafirði? Ég tel Tindastól vera félag Skagafjarðar, allavega út á við. Hefur fólk ekki áhuga og metnað í að Skagafjörður eigi félag í efstu deild í að minnsta kosti einni hópíþrótt og fá athygli á landsvísu? Eina vonin eins og staðan er nú er í körfuboltanum. En til að svona starf gangi þurfa margar hendur að leggja sitt af mörkum, svona fyrirtæki er ekki rekið af örfáum manneskjum í sjálfboðavinnu eins og þetta er gert í dag og ber að hrósa þeim sem lagt hafa mikið á sig undanfarin ár og fleytt félaginu hátt. Þetta fólk hefur lagt mikið á sig en eins og ég segi, það gengur ekki til lengdar að öll vinna sé á fáum hendum, þá fá menn ógeð. Það þurfa allir að hjálpast að, ekki bara að mæta á leiki og hrópa áfram Tindastóll þegar liðið er öruggt með sigur. Fólk þarf að taka þátt, spyrja: hvað get ég gert fyrir félagið?,
Mín tilfinning nú er sú að næsta vetur verði meistaraflokkur karla í basli í Iceland Express deildinni vegna manneklu og falli að öllum líkindum. Erfitt verður að fá leikmenn því allir feitu bitarnir eru búnir að ganga frá sínum málum enda er farið að síga á seinni hluta leikmannabrasksins þetta vorið. Það er í lok apríl og maí sem hlutirnir gerast.
Það er sorglegt ef það fer svo að körfuboltinn deyr í Skagafirði. Í vetur voru nokkrir öflugir yngri flokkar og er það jákvæð þróun eftir smá lægð undanfarin ár. Ef þessir leikmenn eiga að eiga möguleika á að leika í meistaraflokki í efstu deild þá þarf að halda starfinu gangandi og þá meina ég að það þurfa allir að hjálpast að. Hér á árum áður átti Tindastól lið í A riðli í hverjum flokk stráka og stelpna, liðin unnu Íslandsmeistaratitla og bikarmeistaratitla. En þetta gerist ekki af sjálfu sér. Það þarf að byggja frá grunni, það þarf að laða krakkana að körfuboltanum og láta þetta vera skemmtilegt, í upphafi má ekki einblína á sigurinn, það á að vera gaman og í orðinu gaman felst ýmislegt á þessum árum. Leikurinn sjálfur og sigur eru ekki aðalatriðið, það er gaman að hittast saman undir merkjum körfunnar og gera stundum eitthvað annað en að spila og æfa körfubolta. Ef börnum þykir skemmtilegt í körfubolta þá frétta vinirnir það og hópurinn stækkar sem verður til þess að starfið eflist og liðin verða sterkari. En hér verða foreldrarnir að vera virkir og taka þátt, fleiri hendur vinna létt verk. Og framtíðin liggur í ungviðinu, eftir því sem fleiri leikmenn koma úr yngri flokka starfinu þeim mun betri verður árangur meistaraflokks og þeim mun meiri verður jákvæða athyglin sem Skagafjörður fær.
Það ber þó að hrósa öllum þeim sem lagt hafa á sig mikla vinnu við starf körfuknattleiksdeildar Tindastóls undanfarin ár. Þessi hópur er bara ekki nógu stór og skiljanlega hefur þetta fólk ekki endalausan kraft, en það er hægt að virkja þeirra kraft aftur og betur með því að fá fleiri í starfið. Eftir því sem fleiri fást til að starfa þeim mun minna verður hlutverk hvers og eins.
Skagfirðingar þurfa að spyrja sig að þeirri spurningu hvort þeir vilji eiga lið í efstu deild í hópíþrótt. Ef svarið er já þá verða þeir að spyrja hvað þeir geti gert til að svo verði. Slíkt er ekki unnið af litlum hóp.
körfuboltakveðja
Rúnar Birgir Gíslason
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.6.2007 | 09:52
Áskorun til Skjásins
Ég birti þetta á karfan.is og læt það flakka hér líka
Fyrir skömmu mátti lesa viðtal við Snorra Má Skúlason um að nú væri útsendingum Skjásporti væri nú lokið með því að enski boltinn færi yfir á Sýn. Það vakti þó athygli mína að hann nefndi að vel
gæti verið að Skjársport myndi sýna eitthvað annað þegar færi að hausta.
Hér sér körfuboltamaðurinn færi, væri ekki gráupplagt fyrir þá á Skjánum að athuga með Euroleague eða bandaríska háskólakörfuboltann? Efast ekki um að það væri markaður fyrir það
og nóg af fólki til að starfa við.
Stöðin gæti einnig verið í samstarfi við íslensk félög og áhugamenn og birt ýmislegt af því sem er að birtast á netinu í dag og körfuboltamenn hafa búið til sjálfir, samanber frábær myndbönd Pálmars Ragnarssonar úr Fjölni, myndbönd Þorsteins Húnfjörðs og einnig KR inga svo einhver séu nefnd. Einnig eru sum félög að senda leiki sína beint út á netinu og vel væri hægt að hugsa sér samtarf
þar. Þá hafa Víkurfréttamenn verið að búa til sjónvarpsþætti og mætti skoða með að sýna þá á þessari stöð.
En það eru líka fleiri deildir sem hægt var að athuga með, t.d. þá ítölsku þar sem Jón Arnór Stefánsson leikur og einnig spænsku deildina, í þessum tveimur deildum er boðið upp á frábæran körfubolta sem Íslendingar hefðu gaman af að horfa á og ég efast ekki um að Skjárinn gæti haft tekjur af.
Það er allavega ekki vitlaus hugmynd fyrir stöðina að skoða þessa möguleika, þetta er stöð með reynslu af að endurvarpa efni utan úr heimi og því ekki flókið fyrir þá að halda áfram. Innan sinna banda eiga þeir líka menn eins og Snorra Sturluson sem hefur mikinn áhuga á körfubolta og gæti lýst leikjum.
Rúnar Birgir Gíslason - runar@karfan.is
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2007 | 08:20
Skil dómarann vel
Ég hef heyrt raddir þar sem fólk er ósátt við að dómarinn hafi ekki klárað leikinn, sjálfur hef ég svo sem velt því fyrir mér.
Eftir því sem ég hugsa meira þá finnst mér þetta það eina sem hann gat gert. Það var ljóst að öryggi hans og leikmanna var ekki tryggt. Það hlupu þrír áhorfendur inn á völlinn. Hvað ef einhver þeirra var með eitthvað oddhvasst í vasanum?
Eins það sem dómarinn segir, það verður að sýna fordæmi. Svona á ekki heima á íþróttaviðburðum og því rétt að hætta leiknum. Þá sér fólk að það eyðileggur fyrir tug þúsunum manna og allir hata þann sem eyðileggur viðburðinn.
En það er líka ljóst að Danir þurfa að taka til í sínum öryggismálum, svo virðist vera sem gæslumenn hafi bara verið að horfa á leikinn og það gengur engan veginn.
Varð að flauta leikinn af" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Rúnar Birgir Gíslason
Bloggvinir
- seth
- snorris
- jax
- sigrg
- orgelleikarinn
- bullarinn
- kalli33
- gunnarfreyr
- hannesbjarna
- hannesjonsson
- snorriorn
- eythora
- ofansveitamadur
- reykur
- gusti-kr-ingur
- sveitaorar
- raggirisi
- sigurdurarna
- jabbi
- ktomm
- jakobsmagg
- skallinn
- skapti
- gloria
- attilla
- godsamskipti
- 730
- einherji
- nh04
- nannar
- doolafs
- drhook
- eirikuro
- pallijoh
- oddikriss
- golli
- runarhi
- ithrottir
- veggurinn
- hallurg
- hugsadu
- stebbifr
- herdis
- hofi
- dresi
- kristjanmoller
- litliper
- aronb
- brynjaroggurry
- latur
- gustur
- gudrunvala
- stefanjonsson
- flikk
- ordeal
- alla
- lydur06
- gummisteingrims
- gudni-is
- bjb
- eggman
- gleraugun
- gisli
- gtg
- mojo
- vardturninn
- puffin
- karfa
- hjossi9
- nbablogg
- olihelgi
- vefritid
- amerikugengid
- metal
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar